Kona hringdi í neyðarlínuna og kvartaði undan miklum kviðverkjum og þar með hófst óvænt atburðarás.
„Hún átti í erfiðleikum allt frá þeirri stundu sem hún var sett í mínar hendur,“ sagði Marc í samtali við People, um stúlkuna sem konan ól áður en hún komst á sjúkrahús. Hann gaf henni strax súrefni til að hjálpa henni við að anda upp á eigin spýtur. „Það var frábært að heyra hana gráta,“ sagði hann.
Á þessum tímapunkti hafði hann enga hugmynd um að aðeins 48 klukkustundum síðar myndi hann fara með stúlkuna, sem var nefnd Rebecca Grace, heim, að hann væri orðinn faðir hennar.
Marc og eiginkona hans, Beth, áttu tvo unga stráka, Will og Parker. Þau hafði alltaf langað í þriðja barnið en vegna vandamála á meðgöngu strákanna áttu þau ekki annan kost en að ættleiða ef þau vildu eignast þriðja barnið. Það er langt og kostnaðarsamt ferli.
Nokkrum klukkustundum eftir að Rebecca kom í heiminn var hún á sjúkrahúsi ásamt móður sinni sem var hreinskilin með að hún gæti ekki annast dóttur sína. Marc var þá fyrstur til að gefa sig fram og bjóðast til að taka hana að sér.
Hann hringdi í Beth þennan dag og sagði: „Ég tók á móti stúlkubarni.“
Í gríni svaraði hún: „Getum við fengið hana?“
Hann svaraði: „Ég held að hún verði gefin til ættleiðingar.“
Þegar Beth fékk að vita að móðir stúlkunnar væri einstæð og ætti nú þegar í basli með að sjá fyrir unglingssyni sínum fannst henni að henni bæri skylda til að heimsækja hana á sjúkrahúsið. „Ég fann til með konunni. Ég færði henni litla bænabók og spurði hvort ég gæti hjálpað henni á einhvern hátt.“
Á meðan þær voru að ræða saman kom læknir inn í herbergið og sagði móðurinni að nú væri hægt að setja ættleiðingarferlið af stað. Þá sagði konan við Beth: „Ég get ekki gefið einhverjum, sem ég hef aldrei hitt, barnið mitt.“
„Skyndilega opnaðist möguleikinn fyrir mig til að segja að Marc og ég hefðum viljað ættleiða í mörg ár. Hún leit á mig og sagði, ég vil að þið ættleiðið barnið mitt,“ sagði Beth.
Móðirin fékk síðan hjúkrunarfræðing til að koma með stúlkuna og fékk Beth þá að halda á henni í fyrsta sinn: „Ég hringdi í Marc og sagði: „Ég held að við höfum verið að eignast barn.““
Áður en dagurinn var á enda höfðu hjónin skrifað undir bráðabirgðaskjöl um að þau fengju forræði yfir stúlkunni og innan 48 klukkustunda frá fæðingu hennar fóru hjónin með hana heim.
„Hún er það sem við höfðum beðið fyrir. Þetta var eins og að vinna í lottó,“ sagði Beth.