Rannsóknin byggist á gögnum frá Brasilíu. Niðurstöðurnar eru samhljóma niðurstöðum fyrri rannsóknar þar sem kom í ljós að þeir sem ekki borða kjöt glíma frekar við þunglyndi. En niðurstöður nýju rannsóknarinnar benda til að þessi munur á tíðni þunglyndis tengist ekki mataræðinu.
The Conversation skýrir frá þessu og segir að það virðist liggja beint við að skoða tengslin á milli mataræðis og sérstakra heilsufarsvandamála og ganga út frá því að mataræðið eigi sök á vandanum.
En samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, sem hefur verið birt í the Journal of Affective Disorders, þá er ekki víst að hærri tíðni þunglyndis hjá grænmetisætum tengist mataræðinu. Í rannsókninni var tekið tillit til fjölda næringarþátta, til dæmis heildarneyslu hitaeininga, prótínneyslu, snefilefnaneyslu og hversu mikið maturinn var unninn.
En hvað gæti þá skýrt muninn á þunglyndistíðninni? Vísindamennirnir segja að í fyrsta lagi sé hugsanlegt að þunglynt fólk gerist frekar grænmetisætur. Einkenni þunglyndis eru meðal annars neikvæðar hugsanir sem og sektarkennd.
Ef gengið sé út frá því að þunglynt fólk og þeir sem ekki eru þunglyndir séu jafnlíklegir til að komast að hinum óþægilega sannleika um sláturhús þá sé hugsanlegt að þunglynda fólkið sé líklegra til að hugsa neikvætt um þetta og líklegra til að finna til sektarkenndar fyrir sinn þátt í að skapa eftirspurn eftir kjöti.
Í öðru lagi segja vísindamennirnir að það sé hugsanlegt að það að taka upp lífsstíl sem grænmetisæta geti valdið þunglyndi af öðrum ástæðum en vegna mataræðisins. Þrátt fyrir að það skorti ekkert „hamingjuefni“ í grænmetisfæði þá geti hugsast að það að sleppa því að borða kjöt valdi þunglyndi vegna afleiddra þátta. Til dæmis geti það að gerast grænmetisæta haft áhrif á sambandið við annað fólk og þátttöku í félagslegum athöfnum. Einnig valdi þetta stundum stríðni og öðrum formum félagslegrar útskúfunar.