Kornabörn eru sérstaklega viðkvæm fyrir efnamengun. The Guardian segir að vísindamenn segi að mikil þörf sé á frekari rannsóknum en leggi um leið áherslu á að brjóstagjöf sé enn besta aðferðin við að næra kornabörn.
Brjóstamjólkursýni voru tekin úr 34 heilbrigðum mæðrum, viku eftir að þær ólu börn sín í Róm á Ítalíu. Örplast fannst í 75% sýnanna.
Fyrri rannsóknir höfðu leitt í ljós að örplast hefur áhrif á frumulínur fólks, dýr á tilraunastofum og sjávardýr en óljóst er hver áhrifin eru á fólk. Plast inniheldur oft skaðleg efni sem hafa áður fundist í brjóstamjólk.
Vísindamennirnir skráðu neyslu mæðranna á mat og drykk í plastumbúðum og á sjávarfangi sem og notkun á snyrtivörum í plastumbúðum. Þeir fundu engin tengsl þarna á milli og tilvistar örplasts í brjóstamjólkinni. Þetta bendir að þeirra mati til að tilvist örplasts í umhverfinu geri að verkum að óhjákvæmilegt sé að það berist í fólk. Þeir segja þó að þörf sé á stærri rannsóknum til að finna helstu áhættuþættina.