Á næstu árum verða nokkur geimför send til plánetunnar til að rannsaka hvernig og af hverju Venus þróaðist svona allt öðruvísi en jörðin. Sumir vísindamenn vilja ganga enn lengra og senda fólk til plánetunnar. Það á þó ekki að lenda á henni, heldur fljúga í kringum hana. Conversation skýrir frá þessu.
Þvermál Venusar er aðeins minna en jarðarinnar og Venus er nær sólinni. Þetta þýðir að ef vatn var á yfirborðinu þá gufaði það upp fljótlega eftir að plánetan varð til og þannig hafa gróðurhúsaáhrifin byrjað. Eldgos mynduðu hraunbreiður og juku magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu og gróðurhúsaáhrifin urðu stjórnlaus. Við þetta allt hækkaði hitinn úr því að vera aðeins hærri en á jörðinni í 475 gráður eins og nú er.
Árið á Venus er 225 dagar og plánetan snýst hægt um sjálfan sig eða einn hring á 243 dögum. Þetta tengist því að ekkert segulsvið er á Venus sem aftur veldur því að lofthjúpurinn eyðist stöðugt. Hann snýst raunar hraðar en plánetan sjálf.
Þrátt fyrir að þetta séu allt annað en glæsilegar aðstæður fyrir líf þá hafa margir vísindamenn velt fyrir sér hvort lífvænleg skilyrði geti verið hátt yfir yfirborðinu. Nýlegar mælingar benda til að phosphine, sem getur verið merki um líf, sé að finna í lofthjúpnum. Hér á jörðinni eru það örverur sem mynda phosphine. Frekari mælinga og rannsókna er þörf til að komast að hvaðan þetta phosphine kemur.
Það sem við vitum um Venus nú eru upplýsingar og gögn sem var aflað með nokkrum geimferðum. Frá 1970 til 1982 náðu sovésk Venera 7-14 geimför að lenda á Venus og vera starfhæf í allt að tvær klukkustundir áður en hrikalegar aðstæðurnar eyðilögðu þau. Á þeim tíma sendu þau myndir og gögn til jarðar.
En mörgum spurningum um Venus er ósvarað, þar á meðal af hverju plánetan þróaðist svona allt öðruvísi en jörðin. Það er mikilvægt að fá svar við því til að auka skilning okkar á hvaða fjarplánetur geta hýst líf.
Bandaríska geimferðastofnunin NASA mun senda tvö geimför til Venusar á árunum 2028 til 2030 og Evrópska geimferðastofnunin ætlar að senda eitt snemma á fjórða áratugnum. Þetta eru ómönnuð geimför sem eiga að afla meiri vitneskju um umhverfið á Venusi og þróun plánetunnar.
Indverjar hyggja einnig á ferð til Venusar og það sama er að segja um Rússa.
Hugmyndir um að senda fólk með geimförum til Venusar og láta það fljúga hring eða hringi um plánetuna komu fram á sjöunda áratugnum.
Með þessu væri hægt prófa eitt og annað er varðar ferðir langt út í geiminn, til dæmis hvernig áhöfnin getur átt samskipti við stjórnstöð á jörðinni en vegna fjarlægðarinnar tekur það útvarpsmerki nokkrar mínútur að berast á milli. Þetta gæti því verið undirbúningur fyrir flóknari mannaðar geimferðir til Mars. Áhöfnin myndi þó ekki lenda á Venusi, til þess eru aðstæðurnar þar allt of erfiðar.
Að senda fólk til plánetu þar sem hugsanlegt er að lifandi lífverur séu auðveldar ekki leitina að þeim. Hugsanlega myndum við menga lofthjúpinn áður en við finnum merki um líf. Besta leiðin til að leita að ummerkjum um líf er að senda mannlaus geimför.