Tania Gomez er þrítug sænsk kona sem virðist hafa lifað tvöföldu lífi. Aftonbladet og Dagbladet skýra frá þessu.
Á heimasíðu Europol kemur fram að hún sé eftirlýst vegna grófra fíkniefnalagabrota og peningaþvættis.
Gomez starfrækti samtökin Hundgärin sem hafa bjargað heimilislausum hundum víða um Evrópu og fundið ný heimili fyrir þá. En þetta virðist bara hafa verið yfirvarp fyrir umfangsmikla glæpastarfsemi.
Á heimasíðu Europol kemur fram að Tania tengist skipulögðum glæpasamtökum í Stokkhólmi og að hennar hlutverk hafi verið að flytja mikið magn fíkniefna og peninga á milli staða. Hún er einnig grunuð um ólögleg viðskipti með dýr.
Lögreglan hefur leitað að henni síðan í mars 2021.
Lögreglan telur að hún tengist gjaldeyrismiðlun í Stokkhólmi þar sem lögreglan fann fleiri milljónir króna faldar.
Gjaldeyrismiðlunin var miðpunkturinn í starfsemi glæpagengis. Tólf manns hafa hlotið dóma í tengslum við starfsemi þess en ekki Tania sem lét sig hverfa.