VG skýrir frá þessu og vísar í rannsóknina. Fram kemur að allt frá því að byrjað var að bólusetja gegn kórónuveirunni hafi konur víða um heim tilkynnt um breytingar á tíðahring sínum.
Ekki er vitað hvað veldur því en margar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu og hafa þær beinst að því að finna samhengi á milli bólusetninga og breytinga á tíðahringnum.
Nýja rannsóknin náði til tæplega 20.000 kvenna í Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi og fleiri Evrópuríkjum.
Niðurstöðurnar voru nýlega birtar af bandarískum heilbrigðisyfirvöldum. Í þeim kemur fram að bóluefnin geta valdið breytingum á tíðahringnum.
Konur upplifðu að blæðingar þeirra hófust einum degi síðar en venjulega. Um smávægilegar og tímabundnar breytingar var að ræða.
Upplýsingarnar um blæðingar kvennanna voru sóttar í hið vinsæla app Natural Cycles þar sem konur skrá sjálfar blæðingar sínar.