Tonga er í Kyrrahafi og kannski ekki land sem er oft til umræðu en margir muna kannski eftir öflugu eldgosi sem varð við eyjurnar í janúar. Þá myndaðist öflug þrýstibylgja sem fór tvo hringi um jörðina.
CNN segir að samkvæmt upplýsingum frá Bandarísku geimferðastofnuninni NASA hafi ný eyja myndast 10. september þegar neðansjávargos varð í eyjaklasanum.
Aðeins liðu ellefu klukkustundir frá því að eldgosið hófst þar til að nýja eyjan birtist á yfirborðinu að sögn NASA sem myndaði eyjuna með gervihnöttum sínum.
Eyjan stækkaði hratt að sögn NASA. Þann 14. september áætluðu jarðfræðingar á Tonga að hún væri orðin 4.000 ferkílómetrar. Þann 20. september var hún orðin 20.000 fermetrar.
Nýja eyjan er ofan á Home Reef neðansjávareldfjallinu við Central Tonga Islands.
NASA segir að fólk eigi ekki að taka of miklu ástfóstri við eyjuna því eyjur, sem verða til við gos í neðansjávareldfjöllum, séu oft skammlífar. En þær geta þó í sumum tilfellum verið sýnilegar árum og áratugum saman.