Hópur vísindamanna, meðal annars frá norska UiT Arktiske háskólanum, birti nýlega rannsókn þar sem niðurstaða þeirra er að þeir eru ekki vissir um hvort vetraböð séu holl.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu International Journal of Circumpolar Health. Niðurstaða hennar er að ekki sé hægt að sýna fram á orsakasamhengi á milli vetrarbaða og heilbrigðis.
Niðurstöðurnar benda þó til að vetrarböð geti haft þau áhrif að það dregur úr magni líkamsfitu hjá karlmönnum og dregur úr líkunum á að fá sykursýki. Scottish Daily Express skýrir frá þessu.
Rannsóknin byggist á yfirferð yfir 104 aðrar rannsóknir þar sem heilsufarslegur ávinningur af vetrarböðum var rannsakaður.
Vísindamennirnir segja að margar af rannsóknunum sýni að það hafi margvísleg áhrif á líkamanna að kalt vatn lendi á honum. En það er bara erfitt að svara hvort þessi áhrif eru holl.
Vísindamennirnir telja að margir aðrir þættir geti skýrt bætt heilsufar, til dæmis meiri hreyfing, betri tök á stressi, félagsleg samskipti og jákvæðari hugsanagangur.