En það er ekki bara danska konungsfjölskyldan sem glímir við vandamál innan fjölskyldunnar. Það gerir sú norska einnig og eftir því sem Se&Hør segir þá hafa verið haldnir nokkrir krísufundir hjá fjölskyldunni að undanförnu. Haraldur konungur, Hákon krónprins og Märtha Louise, prinsessa, hafa setið þessa fundi að sögn blaðsins.
Það er einmitt prinsessan sem hefur verið tilefni fundanna og að því er blaðið segir þá hangir prinsessutitill hennar nú á bláþræði.
Hún er trúlofuð hinum umdeilda Durek Verrett, sem kallar sig shaman (seiðkarl) og segist hafa læknast af kórónuveirunni með aðstoð medalíu einnar. Hann selur nú medalíur af þessari tegund á heimasíðu sinni og kosta þær rúmlega 2.000 norskar krónur. Hann hefur einnig haldið því fram að krabbamein geti verið sjúkdómur sem fólk kallar sjálft yfir sig.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort það er þetta sem veldur því að nú íhuga konungurinn og krónprinsinn alvarlega að svipta hana prinsessutitlinum og skera þannig á opinber tengsl hennar við hirðina.
Í nýlegri skoðanakönnun Norska ríkisútvarpsins, NRK, sögðu 51% aðspurðra að þeir telji að prinsessan eigi ekki að vera fulltrúi hirðarinnar lengur.
Hún afsalaði sér titlinum „Hennar konunglega hátign“ árið 2002 og fyrir þremur árum tilkynnti hún að hún myndi ekki lengur nota prinsessutitil sinn í tengslum við viðskipti.
Hvorki talsmenn hirðarinnar né prinsessan hafa viljað tjá sig um fréttir um hina meintu krísufundi.