Í New South Wales, fjölmennasta ríki landsins, greindust rúmlega 23.000 smit á þriðjudaginn og í Victoria, næst fjölmennasta ríkinu, greindust rúmlega 14.000 smit.
Rúmlega 1.300 COVID-19-sjúklingar liggja nú á sjúkrahúsum í New South Wales. Það er 74 fleiri en gamla metið sem var sett í september þegar Deltaafbrigði veirunnar réði ríkjum.
Eftir uppgjör á smittölum gærdagsins liggur fyrir að nú hefur rúmlega hálf milljón Ástrala greinst með veiruna en um 25 milljónir búa í landinu, þar af um helmingurinn í New South Wales og Victoria.
Vegna hins mikla fjölda COVID-19-sjúklinga á sjúkrahúsum landsins hvetja heilbrigðisyfirvöld í New South Wales fólk til að forðast að fara á sjúkrahús nema mjög brýna nauðsyn beri til.
Mikill fjöldi heilbrigðisstarfsmanna er í sóttkví og einangrun vegna smita og því er mikið álag á það starfsfólk sem eftir er á sjúkrahúsunum.
Þrátt fyrir að staðan sé erfið í heilbrigðiskerfinu ætlar ríkisstjórnin að halda áfram með áætlun sína um afléttingu sóttvarnaaðgerða. Scott Morrison, forsætisráðherra, sagði á mánudaginn að nú þurfi að hætta að hugsa um fjölda smitaðra, þess í stað verði að hugsa um alvarlegan sjúkdóm, lifa með veirunni og gæta að eigin heilbrigði.