Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá dönsku smitsjúkdómastofnuninni. Berlingske skýrir frá þessu. Fram kemur að tölurnar nái yfir 313 sjúklinga, sem voru smitaðir af Ómíkronafbrigði kórónuveirunnar, og hafi 50 þeirra smitast eftir að þeir voru lagðir inn á sjúkrahús. Það þýðir að þeir greindust með veiruna þegar minnst 48 klukkustundir voru liðnar frá því að þeir voru lagðir inn.
Hvað varðar sjúklinga, sem voru smitaðir af öðrum afbrigðum veirunnar, þá smitaðist um þrettándi hver eftir að hafa lagst inn á sjúkrahús. Í heildina voru 1.434 smitaðir af öðru afbrigði en Ómíkron og höfðu 105 smitast á sjúkrahúsi.
„Við höfum aldrei fyrr séð neitt sem minnir á þetta. COVID-19 hefur sett algjörlega nýtt viðmið á þessu sviði. Þetta er mun meira smitandi veira en við höfum séð áður og gerir okkur erfiðara fyrir en aðrar sjúkrahússýkingar,“ sagði Hans Jørn Kolmos, prófessor í örverufræði.