Það voru vísindamenn við Oxfordháskólann á Englandi sem þróuðu bóluefni gegn sjúkdómnum. Það hefur verið notað að undanförnu og samkvæmt því sem kemur fram í vísindaritinu The Lancet þá veitir bóluefnið allt að 80% vörn gegn malaríu eftir að örvunarskammtur hefur verið gefinn.
Margir vísindamenn segja að þetta styrki enn frekar rök þeirra fyrir að því að bóluefnið verði notað til að vernda börn og kornabörn í Afríku gegn þessum banvæna sjúkdómi. Jótlandspósturinn skýrir frá þessu.
Nýja bóluefnið, sem nefnist R21, er ekki fyrsta bóluefnið gegn malaríu en það stendur fyrri bóluefnum miklu framar. R21 er endurbætt útgáfa af Mosquirix, sem kom fyrr fram á sjónarsviðið, og er sagt veita meiri vernd og er auk þess ódýrara í framleiðslu.
Á síðasta ári heimilaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO notkun á Mosquirix bóluefninu í Afríku. Rúmlega ein milljón barna hefur nú þegar fengið það.
Með því hefur tekist að stöðva útbreiðslu malaríu en rannsókn leiddi í ljós að það veitti aðeins um 60% vörn og að hún fór dvínandi með tímanum, jafnvel þótt örvunarskammtur væri gefinn.
Vísindamennirnir við Oxfordháskóla segja að þeirra bóluefni veiti meiri vernd, eða allt að 80%. Það uppfyllir því markmið WHO um 75% vernd gegn malaríu. Fram að þessu hefur stofnunin metið það sem svo að minni vernd en 75% sé skárri en engin.
Samið hefur verið við stærsta bóluefnaframleiðanda heims, sem er í Indlandi, um framleiðslu bóluefnisins og verður hægt að framleiða 200 milljónir skammta á ári frá og með næsta ári. Aðeins eru framleiddir 6 til 10 milljónir skammta af Mosquirix árlega. Þess utan kostar R21 aðeins um helming þess sem Mosquirix kostar.