Sky News skýrir frá þessu og segir að verkefnið sé umdeilt en 70 ár eru liðin frá því að blettatígrar voru lýstir útdauðir á Indlandi.
Þetta er í fyrsta sinn sem blettatígrar eru fluttir á milli heimsálfa til að vera sleppt lausum í náttúrunni.
Dýrunum átta var sleppt lausum í Kunoþjóðgarðinum, sem er í miðhluta Indlands. Svo ótrúlega vildi til að þau komu þangað sama dag og Narendra Modi, forsætisráðherra, átti afmæli. Hann sá einmitt um að sleppa fyrsta dýrinu lausu.
Sérfræðingar segja að þegar blettatígrar dóu út á Indlandi 1952 hafi það verið eina skiptið sem stórt spendýr varð útdautt í landinu frá því að það fékk sjálfstæði og að Indverjum beri siðferðileg skylda til að fá blettatígra aftur til landsins.
Gagnrýnisraddir hafa hins vegar sagt að þetta sé ekki skynsamlegt og benda á að afrískir blettatígrar séu ekki eðlilegur hluti af indverskri náttúru. Til eru asískir blettatígrar en aðeins í Íran.