Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að appið noti gervigreind til að greina það á rödd fólks hvort það er smitað af veirunni. Notendur þess verða að veita upplýsingar um sjúkrasögu sína, hvort þeir reyki og lýðfræðilegar upplýsingar um sig sjálfa. Einnig verða þeir að taka upp stutt hljóðbrot af öndun sinni, hósta og lesa stutta setningu.
Fram kemur að appið finni smit í 89% tilfella og sé ódýrt í notkun. Það gæti gert það að góðum kosti í lágtekjulöndum þar sem PCR-próf eru dýr.
Appið skilar niðurstöðu innan mínútu og er sagt vera töluvert nákvæmara en hraðpróf.
Kórónuveirusýking leggst yfirleitt á hálsinn, barka og nef. Appið greinir breytingar á rödd fólks og notar gervigreind til að greina hvort um smit sé að ræða.
Wafaa Aljbawi, hjá Maastricht háskólanum í Hollandi, sagði að niðurstöðurnar lofi góðu og bendi til að einföld raddupptaka og fínstilltur gervigreindaralgóritmi geti hugsanleg verið mjög nákvæm aðferð til að greina hvort fólk er smitað af kórónuveirunni.
Að auki kosti svona próf lítið sem ekkert að hans sögn og einfalt sé að lesa niðurstöðu þeirra. „Sjúklingurinn“ þurfi ekki að vera á sama stað og prófið er gert og svartíminn sé innan við mínúta. Einnig sé hægt að nota það á fjöldasamkomum til að það taki ekki langan tíma að skanna þá sem þar eru.