Afbrigðið virðist vera einstaklega gott í að komast fram hjá ónæmisvörnum fólks, hvort sem þær eru fengnar með bóluefni eða smiti. Þetta skrifar Benjamin Murrell, prófessor við Karólínsku stofnunina í Stokkhólmi, á Twitter. Hann notar orðið „öfgafullt“ um hversu gott afbrigðið er í að komast fram hjá ónæmisvörnum. Afbrigðið er undirafbrigði Ómíkron.
Orð hans féllu í kjölfar rannsóknar á sýnum úr blóðgjöfum í Stokkhólmi. Murrell er einn meðhöfunda rannsóknarinnar. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa tilefni til að hafa áhyggjur af afbrigðinu því það virðist geta sneitt hjá ónæmisvörnum fólks. Rannsóknin hefur ekki verið ritrýnd en hún var birt þann 16. september í BioRxiv.