Hann sagði að ef brölt Kínverja endi með að þeir ráðast á Taívan þá séu Bandaríkin reiðubúin til að verja Taívan.
Það er svo sem ekki nýtt að Biden segi þetta því hann gaf sama loforð á fréttamannafundi í Tókýó fyrir nokkru. En þrátt fyrir loforð Biden um þetta þá ríkir enn vafi um hvort þetta sé í samræmi við viðurkenningu Bandaríkjanna á að Taívan sé hluti af Kína.
NPR segir að þess utan sé það stefna í bandarískum stjórnmálum að ekki sé rætt opinberlega hvernig Bandaríkin muni bregðast við vopnuðum átökum á milli Kína og Taívan. Anthony Kuhn, fréttamaður NPR í Asíu, sagði að ummæli Biden virðist ganga gegn þeirri stefnu.
Mikil spenna hefur verið í samskiptum Kína og Taívan síðan Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, heimsótti Taívan í byrjun ágúst. Margir litu á heimsókn hennar sem tákn um stuðning Bandaríkjanna við Taívan og Kínverjar brugðust ókvæða við heimsókninni og juku hernaðarumsvif sín í nágrenni Taívan mikið.