Fratelli d‘Italia nýtur góðs stuðnings Ítala þessa dagana og miðað við skoðanakannanir mun flokkurinn sigra í kosningunum. Hvort stuðningsmenn flokksins hafi einnig áhyggjur af samkynhneigðum ísbjörnum er hins vegar annað mál.
Mollicone veittist harkalega að nýjum þætti úr teiknimyndaþáttaröðinni um Gurru grís og segir að í honum sé verið að „innræta“ óæskilegar hugmyndir því í þættinum koma lesbískir ísbirnir við sögu. Hann hvatti ítalska ríkissjónvarpið, Rai, til að sýna þáttinn ekki.
The Guardian segir að þátturinn, sem heitir „Families“, hafi verið sýndur í bresku sjónvarpi í fyrsta sinn fyrir tæpum hálfum mánuði. Í honum komu tveir lesbískir ísbirnir við sögu. Persóna, sem heitir Penny, segi í þættinum að hún eigi heima hjá mömmu sinni og hinni mömmu. Önnur mamman sé læknir en hin sjóði spaghettí. Síðan sest fjölskyldan saman að snæðingi.
Mollicone sagði að það sé „óásættanlegt“ að sýna þáttinn á Ítalíu. „Við getum ekki sætt okkur við kynjainnrætingu. Enn einu sinni hefur pólitísk rétthugsun tekið völdin, á kostnað barnanna okkar. Mega börn ekki bara vera börn,“ sagði hann í samtali við La Stampa að sögn The Guardian.