The Guardian segir að alþjóðlegur hópur vísindamanna, þar á meðal frá Ástralíu, Bretlandi og Bandaríkjunum, hafi notað erfðagreiningu til að sýna fram á orsakatengsl á milli hreyfingar og hættunnar á að fá krabbamein.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu British Journal of Sports Medicine. Hún byggist á gögnum um 130.957 konur. Af þeim voru 76.505 með brjóstakrabbamein.
Í fyrri rannsóknum var sýnt fram á tengsl á milli hreyfingar og minni hættu á brjóstakrabbameini en erfitt hefur reynst að sýna fram á orsakatengsl.
Brigid Lynch, prófessor hjá Cancer Council Victoria og aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði að alltaf hafi verið ákveðin óvissa um hvort hreyfing tengdist í raun minni líkum á að fá brjóstakrabbamein eða hvort þessi tengsl væru háð öðrum þáttum. Til dæmis gætu konur sem hreyfa sig meira, lifað heilbrigðara lífi að öðru leyti.
Hún sagði að niðurstöður nýju rannsóknarinnar bendi til að það séu örugglega orsakatengsl, hreyfing dragi úr hættunni á að fá brjóstakrabbamein.