Sky News skýrir frá þessu. Loftsteinninn gerði út af við risaeðlurnar og þar með lauk tíma þeirra hér á jörðinni. En hann kveikti einnig gróðurelda í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem hann lenti en það var þar sem nú er Mexíkó.
Auk risaeðlanna gerði loftsteinninn út af við tæplega 75% allra plöntu- og dýrategunda á jörðinni.
Með greiningu á steinum, frá þeim tíma er loftsteinninn skall á jörðinni, telja vísindamennirnir sig geta staðhæft að sumir eldanna kviknuðu innan nokkurra mínútna, í mesta lagi, eftir áreksturinn.
Þeir telja að eldarnir hafi kviknað við hina öflugu sprengingu eða við að hita frá dropum af bráðnuðum steinum sem féllu af himni rétt eftir áreksturinn.
Ben Kneller, hjá Aberdeen háskóla, er meðhöfundur rannsóknarinnar sem hefur verið birt í vísindaritinu Scientific Reports. Hann segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að eldarnir kviknuðu strax eftir að loftsteinninn skall á jörðinni.