The Guardian skýrir frá þessu og segir að í Pathfinder rannsókninni hafi blóð úr rúmlega 6.600 manns, 50 ára og eldri, verið rannsakað. Mörg tilfelli krabbameins hafi greinst. Sum hafi verið á byrjunarstigi og þrír fjórðu hlutar hafi verið tegundir sem er ekki skimað reglulega fyrir.
Svokallað Galleri próf var notað í rannsókninni en það leitar að erfðaefni krabbameins í blóði. Prófið hefur verið sagt vera tímamótapróf. Á næsta ári verða birtar niðurstöður stórrar rannsóknar með þetta próf en 165.000 manns tóku þátt í því.
Læknar vonast til að prófið geti bjargað mannslífum með því að greina krabbamein það snemma að skurðaðgerðir og aðrar meðferðir virki betur. Tæknin er þó enn á þróunarstigi.
Prófið finnur krabbamein og spáir fyrir um hvar það er. Þetta gerir læknum kleift að vinna hratt við að staðsetja það og staðfesta að um krabbamein sé að ræða.