Aftonbladet segir að um klukkan 21 hafi 45 ára karlmaður verið skotinn í Södra Ängby í vesturhluta Stokkhólms. Maðurinn hafði verið á ferð um hverfið og ógnað fólki. Einnig hafði hann ráðist á einn en sá slapp ómeiddur. Þegar lögreglan kom á vettvang þróuðustu málin þannig að á endanum drógu lögreglumenn upp skotvopn og skutu manninn sem var með hníf. Hann er grunaður um morðtilraun.
Klukkan 23 var 45 ára karlmaður skotinn í Bjuv á Skáni. Beðið var um aðstoð í hús eitt vegna andlegra veikinda manns. Þegar lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir að maðurinn var með skotvopn. Aftonbladet hefur eftir talsmanni lögreglunnar að maðurinn hafi ógnað lögreglumönnunum sem hafi þá skotið hann.
Klukkan 1 í nótt skaut lögreglan mann í miðbæ Lidköping eftir að hann hafði ógnað lögreglumönnum með hníf. Hann gekk í átt að þeim með hníf á lofti að sögn lögreglunnar.
Lögreglan hefur ekki skýrt frá alvarleika áverka mannanna þriggja en talsmaður lögreglunnar sagði að almennt séð séu skotáverkar alvarlegir.
Allt síðasta ár beittu sænskir lögreglumenn skotvopnum sínum 21 sinni, eða tæplega tvisvar í hverjum mánuði að meðaltali. Tveir létust eftir skot lögreglunnar.