Meðal þeirra ráðlegginga sem orkustofnunin setur fram er að hiti í skrifstofuhúsnæði og skólum verði takmarkaður við 19 til 20 gráður í vetur, að sólarsellur verði settar á þök opinberra bygginga og að dregið verði úr ljósanotkun á kvöldin og nóttinni.
Danska ríkisútvarpið hefur eftir Vincent Rudnicki, skrifstofustjóra hjá orkustofnuninni, að leiðbeiningarnar séu hugsaðar sem hugmyndir. Ekki sé um fyrirmæli að ræða. Hér sé um hugmyndir að ræða um hvernig sé hægt að spara orku ef þörf krefur.
Sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir þurfa ekki að lækka hitann ef til þess kemur að spara þurfi orku. Hjá sveitarfélögum og héraðsstjórnum er ekki hægt að gefa fyrirmæli um aðgerðir af þessu tagi, fyrst þarf að koma til lagabreytinga. Hjá ríkinu geta ráðherrar hins vegar gefið fyrirmæli um aðgerðir af þessu tagi.
Tillögurnar ná til um 380.000 opinberra starfsmanna.
Meðal sparnaðarráða er:
Að nota skynjarastýrð ljós.
Að hiti verði lækkaður sjálfvirkt á kvöldin, nóttinni og um helgar.
Að skrúfað verði fyrir heita vatnið inni á klósettum eða hitastig vatns verði takmarkað.
Starfsfólk fái fræðslu í hvernig sé hægt að nýta hita sem best og verði hvatt til að slökkva á prenturum, tölvuskjáum og ljósum.
Aðeins það vatn sem á að nota verði soðið.
Starfsfólk klæði sig minna á sumrin og meira á veturna.
Starfsfólk hafi fasta heimavinnudaga eða þess vegna heimavinnuvikur.