Í lok júlí birti Bukele myndband á Twitter. Það virðist hafa verið tekið úr dróna og sýnir vörubíla aka með byggingarefni á autt svæði í suðausturhluta landsins. Í texta við myndbandið varpar forsetinn ljósi á hvað er verið að gera.
Hann segir að fyrir nákvæmlega mánuði hafi hann tilkynnt um byggingu „miðstöðvar fyrir fangelsaða hryðjuverkamenn“. Það sé það sem sjáist á upptökunni og verði það tilbúið innan 60 daga. Þar verður að hans sögn pláss fyrir 40.000 „hryðjuverkamenn“ sem verða einangraðir frá umheiminum.
Þetta er nýjasta skrefið í yfirlýstu stríði hans gegn glæpagengjum sem hafa áratugum saman gert El Salvador að einu hættulegasta landi heims. Hefur forsetinn, sem er fertugur, ákveðið að beita öllum meðulum í þessu stríði.
Þegar 62 féllu í valinn þann 27. mars síðastliðinn í tengslum við ofbeldisverk glæpagengja lýsti Bukele yfir neyðarástandi sem felur í sér að lögreglan getur handtekið fólk án þess að hafa handtökuheimild. Þessi heimild hefur verið nýtt óspart síðan og hafa rúmlega 46.000 verið handteknir síðan en um 6,5 milljónir búa í landinu. BBC skýrir frá þessu.
Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt aðferðir Bukele og stjórnar hans sem og meðferðina á hinum handteknu. Aðrir eru mun jákvæðari og er ekki annað að sjá en að almenningur styðji við bakið á honum en samkvæmt nýjustu könnunum styðja um 85% landsmann hann og skiptir þá engu þótt hann þyki hunsa leikreglur lýðræðisins hvað eftir annað.