Kaye Wellings, prófessor í kynlífsheilbrigði við London School of Hygiene and Tropical Medicine, segir að rannsóknir bendi til að kynlíf geti haft jákvæð áhrif á heilsufar fólks, til dæmis ónæmiskerfið, hjartað, æðakerfið og þunglyndi.
Daily Mail skýrir frá þessu. Fram kemur að á síðasta ári hafi rannsókn, sem var birt í ritinu Fertility and Sterility, sýnt að það að stunda kynlíf að minnsta kosti þrisvar í mánuði drægi úr líkunum á alvarlegum veikindum af völdum COVID-19. Kenningin gengur út á að kynlífið geri líkamann betur í stakk búinn til að berjast við sjúkdóma.
Rannsókn frá 2004, sem var birt í Psychological Reports, sýndi að það að stunda kynlíf einu sinni til tvisvar í viku jók magn ónæmisglóbúlíns A sem er hluti af viðbragðskerfi ónæmiskerfisins sem verndar okkur gegn sýkingum.
Niðurstöður annarrar rannsóknar, sem var birt í vísindaritinu Ear, Nose & Throat, á síðasta ári sýna að fullnæging losi jafnvel um stíflur í nösum og nefúði.
Rannsókn vísindamanna við University College London sýndi að konur sem voru virkar í kynlífi, stunduðu kynlíf minnst einu sinni í mánuði, fengu tíðahvörf síðar en konur sem ekki stunduðu kynlíf.