Lögreglan kom fljótlega á vettvang og fékk aðstoð frá rannsóknardeild ríkislögreglunnar, Rejseholdet.
Hinn látni hét Jan Nielsen og var frá Faaborg. Hann var alkóhólisti og fíkniefnaneytandi. Margir í bænum könnuðust við hann því hann var oft með leiðindi við fólk þegar hann var undir áhrifum.
Svo undarlega hafði borið við þann 8. október að hann hafði ekki sótt framfærslueyri sinn en um 60 manns sáu hann á lífi þennan dag. 18 manns töldu sig hafa séð hann á lífi 9. október. Það var því gengið út frá því að hann hefði verið myrtur aðfaranótt 10. október og að morðið tengdist fíkniefnamarkaðnum á Fjóni. En fljótlega lá ljóst fyrir að ekki var hægt að styðja þessa kenningu með neinum gögnum.
Þá var stórri spurningu einnig ósvarað: Af hverju hafði morðinginn fjarlægt kynfærin af Nielsen?
Það hversu vel það hafði verið gert fékk lögregluna til að beina sjónum sínum að því að finna út hver gæti handleikið hníf á þennan hátt. Voru læknar, kjötiðnaðarmenn og starfsmenn í sláturhúsum í þeim hópi sem skoðaður var. En ekkert kom út úr þessu.
Undir lok janúar 1982 komst loks hreyfing á málið. Þá var innbrotsþjófur fangelsaður fyrir mörg innbrot á svæðinu. Nokkur vitni höfðu séð hann í blóðugum fötum í kringum 9. október. Hann hafði einnig sagt eitthvað við nokkra aðila sem gat bent til að hann væri viðriðinn morðið.
Hann var margoft yfirheyrður um morðið og á endanum játaði hann. Hann sagðist hafa hitt Nielsen fyrir tilviljun og hafi Nielsen verið ögrandi og meðal annars leitað á hann kynferðislega. Þetta endaði með slagsmálum og sagðist hann hafa sparkað og slegið Nielsen ítrekað.
Hann sagðist þó ekki muna eftir að hafa skorið kynfærin af honum.
Lögreglan var því komin með játningu en hafði á litlu öðru að byggja til að styðja við hana. Að lokum var maðurinn látinn laus og rannsóknin var komin í öngstræti. Lögreglan varð að horfast í augu við að líklega myndi ekki takast að leysa málið og ekki var það til að bæta úr skák að maðurinn dró játningu sína til baka.
1984 hafði þýska lögreglan samband við þá dönsku. Ástæðan var að þýskur maður, sem var grunaður um mörg morð, hafði skýrt frá því að í október 1981 hefði hann myrt ungan mann í Faaborg og síðan skorið getnaðarlim hans og eistu af.
Þetta var aðferð sem maðurinn, Kurt-Friedhelm Steinwegs, var þekktur fyrir að beita.
Danskir lögreglumenn fóru til Þýskalands og yfirheyrðu Steinwegs sem skýrði frá morðinu í smáatriðum.
Hann kom til hafnar í Faaborg í október 1981 á skipi sem hann var áhafnarmeðlimur á. Hann hafði hitt Nielsen fyrir tilviljun og hafði þeim lent saman. Hann sagðist hafa beitt Nielsen miklu og grófu ofbeldi og síðan skorið kynfærin af honum. Síðan kastaði hann líkinu í sjóinn og fór aftur um borð í skipið sem hélt úr höfn að morgni 8. október.
Lögreglan vissi af þessu skipi þegar rannsókn málsins hófst en hafði afskrifað það fljótlega því fjöldi vitna sagðist hafa séð Nielsen á lífi eftir að skipið lét úr höfn.
Steinwegs var kallaður „Skrímslið frá Neðri Rín“ í fjölmiðlum. Hann var fundinn sekur um fimm morð í Þýskalandi og eitt í Danmörku. Hann hefur verið lokaður inn á réttargeðdeild síðan.
Ástæðan fyrir ódæðisverkum hans var að hann „vildi sjá hvað væri undir húðinni þegar hann fjarlægði kynfærin“.