Ef þér finnst fimm mínútur að meðaltali vera mikið þá er það nú svo að heimsóknirnar þurfa ekki alltaf að taka svona langan tíma og þá sérstaklega ekki fyrir karla. LADbible segir að margir séu svona lengi á klósettinu því þeir séu að nota símann á meðan.
En það geta auðvitað verið aðrar ástæður að baki langra klósettferða. Ein er að klósettið er einn fárra staða þar sem fólk fær algjört næði og það er mjög ólíklegt að aðrir spyrji út í lengd klósettferðanna.
Margir hafa þörf fyrir smá ró og næði í amstri dagsins, smá tíma fyrir sjálfa sig, og taka því smá tíma aukalega á klósettinu til að ná því.
En margir sérfræðingar vara við að setið sé á klósettinu í mjög langan tíma. Ástæðan er að það getur aukið líkurnar á að fá gyllinæð.
Samkvæmt því sem Mayo Clinic segir þá eykur það líkurnar á að fá gyllinæð ef setið er of lengi á klósettinu eða ef fólk rembist of mikið við að reyna að koma því út sem þarf að koma út úr líkamanum.
Líkurnar á að fá gyllinæð aukast eftir því sem fólk eldist og einnig ef fólk stundar ekki neina hreyfingu að ráði. Mataræðið skiptir einnig máli, mikilvægt er að innbyrða nægilega mikið af trefjum.