Coddington, sem var fimmtugur, var tekinn af lífi í gærmorgun með því að eitri var sprautað í hann.
Hann var dæmdur til dauða fyrir að hafa myrt Albert Hale, 73 ára, með hamri fyrir 25 árum. Þá kom fram í réttarhöldunum að Coddington hefði reiðst mjög þegar Hale vildi ekki láta hann fá peninga til að kaupa kókaín.
Þegar Coddington kom fyrir reynslulausnarnefndina fyrr í mánuðinum bað hann fjölskyldu Hale afsökunar og sagðist vera annar maður í dag en fyrir 25 árum. Hann sagðist vera hættur að neyta eiturlyfja og væri ekki grimmur morðingi. „Ef þessu lýkur í dag með dauða mínum, þá er það í lagi,“ sagði hann.
Mitch Hale, sonur Albert Hale, hvatti nefndina til að mæla ekki með mildun dómsins. Fjölskyldan gæti ekki ýtt málinu frá sér eftir að hafa þjáðst í 25 ár. „Enginn gleðst yfir því að einhver deyi en Coddington valdi þessa leið . . . hann vissi hverjar afleiðingarnar væru, hann kastaði teningnum og tapaði,“ sagði hann að sögn Sky News.
Emma Rolls, verjandi Coddington, sagði reynslulausnarnefndinni að Coddington hafi verið stórskaddaður eftir margra ára misnotkun áfengis og fíkniefna. Sú misnotkun hafi hafist þegar hann var smábarn og faðir hans setti bjór og viskí í pelana hans.
Nefndin greiddi atkvæði um hvort milda ætti dóminn og þannig koma í veg fyrir að Coddington yrði tekinn af lífi. Atkvæði féllu 3-2. En Kevin Stitt, ríkisstjóri, hunsaði niðurstöðuna og vildi ekki fara eftir henni og var Coddington því tekinn af lífi.