Suðurkóreskir embættismenn segja að markmið æfingarinnar sé að styrkja viðbúnað herja ríkjanna við vopnatilraunum og eldflaugatilraunum Norður-Kóreu. Æfingin hefur fengið nafnið Ulchi Freedom Shield.
Þegar Yoon Suk-yeol tók við embætti forseta Suður-Kóreu í maí hét hann að koma sameiginlegum æfingum með Bandaríkjaher í „eðlilegt“ horf og auka varnirnar gegn nágrönnunum í norðri.
Á síðustu árum var dregið úr sameiginlegum heræfingum ríkjanna vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og stefnu forvera Yoons um að reyna að fá norðanmenn til viðræðna.
Norðanmenn bregðast ávallt illa við þessum æfingum og segja þær æfingar fyrir innrás í Norður-Kóreu.