ScienceAlert segir að vísindamenn hafi fundið fótsporin fyrir tilviljun í byrjun júlí þegar þeir voru akandi á leið til svæðis, þar sem fornleifauppgröftur stendur yfir, nærri Hill Air Force Base í Utah Great Salt Lake Desert.
Í fyrstu fundu vísindamennirnir aðeins nokkur fótspor en við nánari rannsókn með ratsjá fundu þeir að minnsta kosti 88 fótspor eftir börn og fullorðna.
Fótsporin eru eftir fólk sem gekk berfætt um svæðið fyrir að minnsta kosti 10.000 árum þegar þarna var votlendi. Vísindamenn telja að sporin geti verið allt að 12.000 ára gömul.
Anya Kitterman, sem stýrði fornleifarannsókninni, sagði í tilkynningu að það að finna svona gömul fótspor sé eitthvað sem „gerist aðeins einu sinni á ævinni“. „Við fundum miklu meira en við áttum von á,“ sagði hún.
Rannsóknin hefur ekki enn verið birt ritrýnd því vísindamenn eru enn að vinna við rannsókn á fótsporunum.
Í 1,6 km fjarlægð fann annar hópur vísindamanna 12.000 ára gamlar búðir. Hugsanlegt er að fólkið, sem fótsporin eru eftir, hafi búið þar.