Loftslagið er orðið svo hlýtt að jöklar á toppi fjallanna bráðna nú hraðar en frostpinnar á baðströnd. Í franska fjallabænum La Clusaz, sem er í um 1.000 metra hæð yfir sjávarmáli, var sett hitamet í sumar þegar hitinn mældist 32 gráður.
Franska sjónvarpsstöðin TF1 segir að ferðamönnum sé ráðið frá því að reyna að ganga á Mont Blanc vegna hættu á snjóflóðum og grjóthruni. Fyrir nokkrum vikum létust 11 manns á Ítalíu þegar jökull hrundi skyndilega saman og yfir fólkið.
Það er ekki bara í Ölpunum sem jöklar bráðna, það sama á sér stað hér á landi, á Grænlandi og víðar. En Alparnir eru sérstaklega viðkvæmir því ísinn þar er mun þynnri en annars staðar.
Í skýrslu SÞ frá 2019 um loftslagsmál kemur fram að ef losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast megi reikna með að 80% af núverandi massa jöklanna í Ölpunni verði horfinn fyrir aldamót. Margir þeirra muni hverfa algjörlega og skipti þá engu til hvaða aðgerða verður gripið núna segir í skýrslunni.
Frá því að skýrslan var gefin út hefur staðan versnað í Ölpunum. Frekar lítil snjókoma var þar síðasta vetur og tvær öflugar hitabylgjur riðu yfir í byrjun sumar.
Reuters segir að gögn, sem fréttastofan hefur fengið aðgang að, sýni að það stefni í mesta tap jökla í Ölpunum á massa í að minnsta kosti 60 ár.
The Guardian segir að í hitabylgju í júlí hafi þurft að fara upp í 5.184 metra hæð ofan við þorpið Zermatt í Sviss til að fá vatn til að frjósa. Venjulega gerist það í á milli 3.000 og 3.500 metra hæð.
Meðalhitinn í Ölpunum hækkar um 0,3 gráður á áratug en það er tvöfalt hraðar en að meðaltali á heimsvísu.