The Guardian skýrir frá þessu og segir að hjónunum hafi verið sagt að ástæðan fyrir þessu væri val þeirra á „lífsstíl“.
„Við vorum kallaðar inn á skrifstofu skólastjórans á fund. Okkur var sagt að Zoey fengi ekki lengur að koma í skólann vegna vals okkar á lífsstíl,“ sagði Jennifer í samtali við KPLC.
Emily sagði að fundurinn hafi verið haldinn tveimur dögum áður en skólaárið hófst. Á fundinum hafi þeim hjónunum verið sagt að í skólanum fengju aðeins þau börn kennslu sem ættu foreldra sem væru í hjónabandi og væru karl og kona.
Jennifer og Emily ættleiddu Zoey nýlega en hún er frænka Jennie. Faðir hennar lést í vinnuslysi í september 2020. „Hún missti föður sinn, hún missti móður sína og nú missir hún skólann sinn sem hún elskar mjög mikið,“ sagði Jennie.
Zoey hafði áður verið í leikskóla í sama skóla og eignast marga vini og líkað vel við kennarana.
Hjónin sögðust hafa fengið mikinn stuðning frá fólki eftir að Zoey var rekin úr skólanum. Þær segjast einnig hafa fengið tilboð frá nokkrum öðrum kristnum skólum á svæðinu um skólavist fyrir Zoey.