The Guardian hefur eftir Rob Collins, framkvæmdastjóra hjá Rivers Trust, að eftir langvarandi þurrka hafi upptök Thames í Gloucestershire þornað upp. Miðað við hið breytilega veðurfar á Bretlandi megi búast við að tíðni þurrkatímabila muni aukast sem muni hafa í för með sér aukna samkeppni um þverrandi auðlind. Að auki hafi þetta slæmar afleiðingar fyrir lífríkið í ánni.
En það er ekki bara á Bretlandseyjum sem þurrkar og vatnsskortur valda áhyggjum. Á Ítalíu, Þýskalandi og Hollandi eru svipuð vandamál uppi.
Bloomberg segir að vatnsmagnið í Rín, sem á upptök sín í Tomasee í Sviss og rennur í gegnum Austurríki, Þýskaland, Frakkland og Holland, sé mjög lítið um þessar mundir.
Rín er lífsnauðsynleg fyrir flutninga í Evrópu en kolaflutningaskip nota ána til dæmis mikið.
Í Hollandi og á norðanverðri Ítalíu hefur fólk verið beðið um að fara sparlega með vatn. Í Mílanó hefur til dæmis verið skrúfað fyrir alla gosbrunna og bannað er að þvo bíla og vökva garða.