Rosalia er geymd í glerkistu og því auðvelt að sjá hana. Hún er meðal um 8.000 múmía sem eru geymdar í sama safninu í Palermo. Sumum ferðamönnum hefur brugðið mjög við að sjá hana „blikka“ en þrátt fyrir að fólk sé fullvisst um að hún hafi blikkað þá gerði hún það nú ekki. Það hefur verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti að hún blikkar ekki augunum og hefur ekki gert frá því að hún lést. Mirror skýrir frá þessu.
Þegar fólk telur sig sjá hana blikka augunum þá er það einfaldlega sjónblekking sem á sér stað vegna þess hvernig birtan fellur á hana.
Sumir segja að Rosalia líti nánast út eins og hún sé á lífi en lík hennar hefur varðveist mjög vel og er hún enn með ljósa hárið sitt og fallega húð. Raunar hefur þetta ýtt undir samsæriskenningar um að ekki sé um raunverulegt lík að ræða, þetta sé brúða.
En með rannsóknum var sýnt fram á að svo er ekki. Þær leiddu í ljós að líffæri hennar eru enn í líkinu og að heili hennar hafði skroppið saman um helming.
Teppi er yfir henni og er aldrei tekið af en sagt er að það sé sífellt haft á henni til að sýna henni viðeigandi virðingu. En röntgenmyndir sem voru teknar sýna að bæði hendur og fætur eru á sínum stað og í lagi.