Rússnesk lögregla réðist inn á heimili blaðakonunnar Mariu Ovsyannikovu í morgun samkvæmt mannréttindahópnum OVD-Info. Blaðakonan hefur áður verið handtekin og sektuð fyrir að mótmæla innrás Rússlands í Úkraínu. Maria verður tekin fyrir Alríkislögreglu Rússlands, stofnun sambærileg við Alríkislögreglu Bandaríkjanna, samkvæmt Dmitrí Zakhvatov lögfræðingi Mariu. Hann sagði að árásin tengdist líklega mótmælum sem Maria tók þátt í í síðasta mánuði og hélt á plakati sem á stóð: „Pútín er morðingi, hermennirnir hans eru fasistar,“ samkvæmt AP.
„Klukkan sex um morgun á meðan ég svaf, réðust tugir starfsmanna Alríkislögreglunnar inn á heimili mitt,“ birti Maria í færslu á samfélagsmiðilinn Telegram. „Þeir hræddu dóttur mína litlu. Nú á að fara með mig á skrifstofurnar þeirra.“ Maria lenti fyrst í kasti við rússneska ríkið þegar hún truflaði beina fréttaútsendingu frá ríkismiðli í mars. AP greindi einnig frá því að hún hafi verið sektuð tvisvar síðan fyrir að „lítillækka herinn“ meðal annars í færslu sem hún birti á Facebook og í yfirheyrslu í máli Ilya Yashin sem hefur einnig verið ákærður fyrir sama glæp. Glæpur sem gæti haft í för með sér 15 ára fangelsisdóm.