Málið hefur vakið mikla reiði og mörg hundruð manns mótmæltu fyrir framan dómhúsið í gær.
Washington Post segir að 22 manna kvikmyndatökulið, 10 karlar og 12 konur, hafi orðið fyrir árás 80 vopnaðra manna í yfirgefinni námu í síðustu viku.
Fólkinu var skipað að leggjast niður og síðan nauðguðu mennirnir átta konum og stálu öllum eigum þeirra. Að því loknu lögðu þeir á flótta að sögn Elias Mawela, talsmanns lögreglunnar.
Nú er unnið að DNA-rannsóknum á lífsýnum sem fundust á konunum og þannig verða kennsl borin á ofbeldismennina að sögn lögreglunnar.
Fréttir af málinu hafa vakið mikla reiði meðal íbúa á svæðinu og kvenréttindasamtaka í landinu. Hefur því verið haldið fram að atburðir af þessu tagi séu algengir á svæðinu nærri Krugersdorp.
Washington Post segir að mennirnir hafi verið handteknir við aðra yfirgefna námu. Talið er að um svokallaða zama–zama námuverkamenn sé að ræða en þeir dvelja ólöglega í Suður-Afríku og grafa eftir gulli í yfirgefnum námum.