Hinn tvítugi Jaswant Sing Chail hefur verið ákærður fyrir landráð í Bretlandi eftir að hafa verið handtekinn vopnaður lásboga við Windsor-kastala á jóladag í fyrra. Chail, sem er frá Southampton, verður leiddur fyrir dóm þann 17. ágúst næstkomandi en þegar hann var handtekinn hafði hann í hótunum um að skaða Englandsdrottningu.
Chail komst aðeins inn á lóð Windsor-kastala þar sem hann var stöðvaður af hermönnum á vakt. Elísabet Englandsdrottning var staðsett í kastalanum þegar maðurinn var handtekinn.
Ákvæði laganna sem Chail er ákærður fyrir hefur ekki verið notað í rúm fjörtíu ár en þá var maður að nafni Marcus Sarjeant ákærður fyrir að skjóta sex púðurskotum í átt að Elísabetu þegar hún var farþegi í hestvagni í miðborg Lundúna. Hann viðurkenndi sök í málinu og var dæmdur í fimm ára fangelsi.