Mikil spenna hefur verið á landamærum Kosovo og Serbíu eftir að yfirvöld í Kósovó ákváðu að allir Serbar, þar á meðal þeir sem búsettir væru í landinu, þyrftu að skipta þeim út fyrir tímabundið leyfisskjal frá og með 1. ágúst. Þá hefðu allir eigendur bíla með serbneskar bílnúmeraplötur tvo mánuði til að breyta þeim í bílnúmerplötur frá Kosóvó . Serbar sem búsettir eru í Kósovó lokuðu vegum að tveimur landamærastöðvum, með bílum, trukkum og í raun öllum tiltækum tækjum, og þá hafa verið fréttir af því að skotið hafi verið á lögreglumenn. Engin tíðindi eru þó af mannfalli.
Reiði Serba var slík að yfirvöld í Kosovo ákváðu að fresta gildistöku reglnanna um einn mánuð. Forsætisráðherra landsins, Albin Kurti, hefur bent á að aðeins sé um mótsvar að ræða því Serbar krefjist hins sama af hverjum þeim sem kemur frá Kósovó.
Kósovó lýsti yfir sjálfstæði sínu frá Serbíu árið 2008. Flest lönd heims viðurkenna sjálfstæði ríksins en í hópi þeirra ríkja sem gera það ekki eru Rússar ásamt Serbum. Í norðurhluta landsins eru fjölmargir Serbar búsettir sem viðurkenna ekki stjórnvöld í Pristina, höfuðborg landsins, heldur fylgja Serbíu og njóta fjárstuðnings þaðan.
„Ástandið er á suðupunkti,“ sagði Aleksandar Vucic forseti Serbíu í ávarpi vegna málsins og lýsti ennfremur yfir að ef til átaka kæmi þá myndu Serbar hafa betur.
Í yfirlýsingu frá friðargæsluliði NATO í Kósovó kemur fram að þar á bæ sé fylgst náið með stöðu mála og herliðið muni grípa inn í ef til átaka kemur. Tyrkir eru einnig með herlið í Kósovó en þeir eru í hópi ríkja sem hafa viðurkennt sjálfstæði smáríkisins.
Vonir standa til að frestun gildistöku hinna umdeildu reglna muni lægja öldurnar tímabundið en ljóst er að ástandið er eldfimt.