Nýlega kom í Bandaríkjunum út bók sem er sögð afhjúpa hvernig innanbúðarmál hægrisinnaða repúblikana-flokksins hafi gengið fyrir sig á meðan Donald Trump var forseti. Bókin heitir Thank You For Your Servitude: Donald Trump’s Washington and the Price of Submission og er skrifuð af blaðamanninum Mark Leibovich.
Í bókinni segir Lebovich að fyrrum þingmaður repúblikana hafi sagt að áform flokksins hvað varði Donald Trump séu nú eftirfarandi: „við erum bara að bíða eftir því að hann deyi.“
Í bókinni er rakið að flokkurinn hafi ekki áhuga á því að Trump verði forsetaefni þeirra í næstu kosningum. Hins vegar viti menn að það gæti orðið erfitt að halda honum frá því. Því væru menn að halda í vonina að Trump hrökkvi upp af og vandamálið þar með úr sögunni.
Þessi tilvitnun í ónefnda þingmanninn í bókinni hefur verið gagnrýnd af fyrrum repúblikananum Tim Miller sem er verulega á móti Trump. Hann telur tilvitnunina benda til þess að flokkurinn sé ekki að leggja nægilega mikið á sig til að fjarlægja sig frá forsetanum fyrrverandi. Það sé hættuleg hugmyndafræði að umbera Trump áfram. Það sé beinlínis hættulegt lýðræðinu að útiloka Trump ekki frá flokknum.