Það getur verið snúið að finna rétta fatnaðinn fyrir flugferð. Hann þarf að vera þægilegur, halda hita á þér ef það er kalt í vélinni en um leið má hann ekki vera of hlýr ef áfangastaðurinn er hlýr.
Margir skella sér í buxur og strigaskó og pakka gömlu peysunni niður í tösku. En miðað við það sem flugliðar segja þá getur það verið þess virði að staldra aðeins við hvað varðar fatavalið, að minnsta kosti ef þú vilt eiga möguleika á uppfærslu á betra farrými.
Í samtali við WhoWhatWear sögðu flugliðar að gallabuxur og strigaskór séu algjör bannvara ef þú vilt eiga möguleika á uppfærslu. Liverpool Echo skýrir frá þessu.
Þeir sögðu að þegar kemur að því að færa fólk upp á betra farrými sé það útlitið, klæðaburðurinn sem skipti máli. Fólk þurfi að vera vel klætt en samt sem áður ekki of fínt. „Þú ættir að líta út eins og þú ferðist oft. En ekki vera í merkjavöru,“ sögðu þeir meðal annars.