Þá ákvað 54 ára karlmaður að rétt væri að slá garðinn klukkan 21.30. Áttræður nágranni hans var ekki sáttur við þetta og bað hann um að hætta þessu. Það væri orðið áliðið og barnafjölskyldurnar í húsinu þyrftu ró. TV Midtvest skýrir frá þessu.
Þessi orð hins áttræða reittu yngri manninn svo mikið til reiði að hann hljóp upp í íbúð hans og öskraði á hann og hafði í hótunum. Eldri maðurinn náði sér í hníf vegna þess hversu æstur yngri maðurinn var.
Það varð ekki til að róa þann yngri og hann fór og sótti sér nokkra hnífa og byrjaði síðan að stinga gamla manninn. Hann stakk hann í tá og fætur. Gamli maðurinn hringdi í lögregluna sem kom fljótleg á vettvang. Þá var yngri maðurinn farinn af vettvangi en hann var handtekinn skömmu síðar ekki fjarri húsinu.
Hann hafði greinilega ekki áhuga á að ræða við lögregluna því hann sló til lögreglumanna. Það kom ekki í veg fyrir að hann væri handtekinn og í kjölfarið gerði lögreglan húsleit heima hjá honum. Þar fundust tvær skammbyssur.