Þetta getur því skýrt af hverju margir karlmenn finna til svengdar eftir að hafa verið í sólinni.
The Guardian fjallar um rannsóknina sem hefur verið birt í vísindaritinu Nature Metabolism.
Í rannsókninni voru áhrif sólskins á karla og konur rannsökuð. Þátttakendurnir voru látnir vera í sól í 25 mínútur um miðjan dag.
Í ljós kom að sólarljósið jók magn ghrelin hjá körlum en hjá konunum varð engin breyting.
Svipuð niðurstaða varð þegar álíka tilraun var gerð á músum en þá var UVB-geislum beint að þeim. Karldýrin byrjuðu að éta meira og magn ghrelin í blóði þeirra jókst en hjá kvendýrunum varð engin breyting segir í umfjöllun Videnskab.
Hið aukna magn ghrelin í blóðinu var rakið til tjóns á DNA í húðfrumunum en estrogen kemur í veg fyrir þetta og það skýrir af hverju þetta gerðist ekki hjá kvendýrunum.
Carlos Diéguez og Rubén Nogueira, sem eru vísindamenn við Universidad de Santiago de Compostela á Spáni, komu ekki að rannsókninni en þeir segja niðurstöður hennar „áhugaverðar“ að sögn The Guardian.
Duane Mellor, hjá Aston University í Englandi, kom heldur ekki að rannsókninni en er hins vegar ekki sömu skoðunar og Diéguez og Nogueira. „Það er mikilvægt að hafa í huga að rannsóknin sýnir ekki að sólarljós og UVB-geislar valdi þyngdaraukningu hjá körlum,“ sagði Mellor.