25 ára karlmaður var skotinn til bana í Tumba, sem er nærri Stokkhólmi, í gærkvöldi. Tilkynnt var um skothvelli klukkan 22.11 í gærkvöldi. Lögreglumenn fundu særðan mann á vettvangi og hófust strax handa við að reyna að bjarga lífi mannsins á meðan beðið var eftir sjúkrabifreið. Um miðnætti tilkynnti lögreglan að maðurinn væri látinn.
Aftonbladet skýrir frá þessu og segist hafa heimildir fyrir að sá sem er grunaður um að hafa skotið manninn hafi yfirgefið vettvang á rafmagnshlaupahjóli.
Lögreglan var við vettvangsrannsókn fram á nótt og vitni voru yfirheyrð.
Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.