McDonald‘s tilkynnti í maí að ákvörðun fyrirtækisins frá því í mars um að hætta starfsemi tímabundið í Rússlandi yrði nú varanleg. Ekki leið á löngu þar til samið var um kaup rússneska kaupsýslumannsins Alexander Govor á öllum veitingastöðum McDonald‘s í Rússlandi og nafni þeirra var í kjölfarið breytt í „Vkusno i Tocha“.
Í júní voru fyrstu staðirnir síðan opnaðir undir nýja nafninu að sögn Fortune. En nú er keðjan komin í ákveðin vandræði. Nýja keðjan hefur lagt mikla áherslu á það frá upphafi að gæði matarins yrðu ekki minni en þegar staðirnir voru í eigu McDonald‘s og jafnvel meiri og að viðskiptavinirnir myndu ekki merkja mikinn mun en nú verða stjórnendurnir að viðurkenna að þeir geta ekki útvegað mikilvægan mat á matseðilinn. Kartöflur.
Oleg Paroev, forstjóri keðjunnar, sagði nýlega í samtali við RBC sjónvarpsstöðina að vegna vel þekktra atburða hafi mörg erlend fyrirtæki, þar á meðal allir stórir framleiðendur franskra kartaflna, neitað að selja Rússum framleiðslu sína.
BBC segir að stjórnendur fyrirtækisins hafi einnig skýrt kartöfluskortinn með lélegri uppskeru í Rússlandi í ár.
Keðjan hefur nú tilkynnt að ekki verði hægt að bjóða upp á kartöflur með hamborgurum fyrr en í haust.
Þetta er ein birtingarmynd þess hvernig refsiaðgerðir Vesturlanda snerta líf almennings.