Vísindamenn telja sig nú hafa fundið ákveðin líkindi með kolkröbbum og mönnum og telja að þetta geti skýrt hina miklu greind kolkrabba.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá rannsóknarhópnum Stazione Zoologica Anton Dohrn í Napólí á Ítalíu. Rannsókn hópsins hefur verið birt í vísindaritinu BMC Biology.
Niðurstöður hennar sýna að tvær tegundir kolkrabba eru með sama erfðaefnið ,sökkul (transposon), og er að finna í mannsheila.
Vísindamennirnir segja að fyrri rannsóknir hafi sýnt að rúmlega 45% af erfðaefni manna sé byggt á sökklum en þeir hafa verið kallaðir „hoppandi gen“. Þetta viðurnefni er tilkomið vegna þess að þau geta fært sig til í erfðamenginu, eru hreyfanleg gen, og myndað aðrar stökkbreytingar.
Stærsti hlutinn af þessum „hoppandi genum“ er þó óvirkur en meðal þeirra mikilvægustu í þessum hópi eru sökklarnir í svokallaðri LINE-fjölskyldu að sögn vísindamannanna. Þeir segja að þessir sökklar geti enn verið virkir í mönnum.
Vísindamennirnir segja að margir vísindamenn telji að LINE sökklarnir tengist hugrænni getu, á borð við að geta lært og munað, hjá mönnum. Það vakti því áhuga þeirra þegar þeir fundu hluta af LINE-fjölskyldunni í þeim hluta heila kolkrabba sem skiptir öllu fyrir hugræna getu þeirra.
Videnskab segir að Giuseppe Petrosino, einn vísindamannanna, segi að þessi líkindi á milli manna og kolkrabba geti verið „heillandi dæmi um samleitna þróun“. Það er fyrirbæri þar sem sama sameindaferlið þróast, sem svar við sömu þörfinni, í tveimur fjarskyldum tegundum.