Eldfjallið er undir vatni og samkvæmt mælingum þá rís land þar og fellur í sífellu. Það sýnir að eldfjallið er enn mjög virkt. Þetta mat er byggt á mælingum í rúmlega 40 ár. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem hefur verið birt í New Zealand Journal of Geology and Geophysics.
Árið 232 varð gríðarlegt gos í eldfjallinu, það stærsta á síðari tímum mannkynssögunnar, en þá sendi eldfjallið 120 rúmkílómetra af vikri og ösku út í andrúmsloftið.
The Guardian segir að vísindamenn hafi byrjað að fylgjast með landrisi við eldfjallið árið 1979. Mælitækjum hafi verið komið fyrir við það og allt frá þeim tíma hafi verið fylgst vel með því.
Peter Otway, aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir að vísindamennirnir hafi talið að ef eldfjallið væri enn virkt væri hægt að sjá merki um það þegar kvika færist til undir yfirborðinu.
Lítið gerðist fyrstu árin en 1983 dró til tíðinda þegar land fór að rísa stöðugt á einum stað og í kjölfarið fylgdu jarðskjálftar.
Landris hefur mælst 160 mm þar sem það er mest og annars staðar hefur það sigið um 140 mm.
Þessar mælingar auk gervihnattarmynda og jarðskjálftamælinga hafa sýnt að Taupō er enn virkt eldfjall.
Eleanor Mestel, einn höfunda rannsóknarinnar, sagði að þrátt fyrir þetta sé engin ástæða til að hafa áhyggjur, það sé eðli eldfjalla að land rísi og sígi og að jarðskjálftar verði. Það þýði ekki nauðsynlega að eldfjallið sé að vakna til lífsins og að fara að gjósa á næstunni.