Heimsfaraldur kórónuveirunnar er í fullum gangi og hefur sótt í sig veðrið að undanförnu. Víða um heim fjölgar smituðu dag frá degi og heilbrigðisyfirvöld reikna með að faraldurinn muni enn sækja í sig veðrið í sumar og síðan bæta í þegar fer að hausta og fólk fer að vera meira inni við.
Samkvæmt nýrri breskri rannsókn, sem 17.500 manns sem höfðu greinst með COVID-19 tóku þátt í, þá eru það ákveðin sjúkdómseinkenni sem eru algengust þessa dagana hjá þeim smituðu.
BBC segir að samkvæmt niðurstöðunum þá sé hálsbólga algengasta sjúkdómseinkennið nú um stundir. Þar á eftir er höfuðverkur og síðan eru það stíflað nef og hósti sem hrjá fólk einna helst.
Í upphafi heimsfaraldursins var það mat breskra heilbrigðisyfirvalda að algengustu sjúkdómseinkennin væru hár hiti, missir bragð- og /eða lyktarskyns. En það hefur greinilega orðið breyting þar á samhliða því að veiran hefur stökkbreyst og þróast.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar þá eru þetta algengustu sjúkdómseinkennin þessa dagana:
Hálsbólga
Höfuðverkur
Stíflað nef
Slímlaus hósti
Nefrennsli
Hósti með slími
Hæsi
Hnerri
Þreyta
Beinverkir
Svimi
Bólgnir hálskirtlar
Breytt lyktarskyn
Brjóstverkir
Hiti
Hrollur eða skjálfti
Hlustarverkur
Missir lyktarskyns