Terry Venables, 89 ára gamall svínabóndi, hefur verið dæmdur fyrir morðið á eiginkonu sinni, Brendu, sem hvarf fyrir 40 árum síðan. Hann var sakfelldur fyrir að hafa myrt Brendu og komið líki hennar fyrir í rotþró á bóndabæ þeirra, nærri Kempsey í Worcestershire, í maí 1982.
Venables hefur um frjálst höfuð strokið í fjóra áratugi en hvarf Brendu var ráðgáta í 37 ár en líkamsleifar hennar fundust árið 2019. Þá réðst Andrew Venables, frændi Terry, í framkvæmdir á skólpi íbúðarhúss á jörðinni sem hann hafði keypt nokkrum árum fyrr af frænda sínum. Þá fannst höfuðkúp og bein ókunnugrar konu sem rannsókn leiddi í ljós að var Brenda Venables.
Böndin bárust strax að Terry og að endingu var hann ákærður fyrir morðið á eiginkonu sinni. Fyrir rétti reyndi lögfræðingur hans meðal annars að kenna fjöldamorðingjanum Fred West um hvarf Brendu. West, sem lést árið 1995, framdi tólf morð á tuttugu ára tímabili, 1967-1987, í Gloucestershire en flest þeirra með aðstoð eiginkonu sinnar Rosie.
Saksóknari málsins sagði hins vegar að Terry hafi drepið Brendu til þess að geta haldið ástarsambandi sínu við aðra konu, Lorraine Styles, áfram.
Lorraine lést árið 2017 en fyrir rétti var lögð fram lögregluskýrsla frá árinu 1984 þar sem Lorraine var yfirheyrð af tveimur rannsóknarlögreglumönnum. Hún hafði verið ástkona hins auðuga svínabónda í 15 ár en henni fannst undarlegt hversu rólegur Venables var yfir hvarfi eiginkonu sinnar. Skömmu eftir hvarf Brendu kíkti hann í heimsókn til Lorraine, horfði aðeins á sjónvarpið og reyndi að stunda með henni kynlíf.
Lorraine sagðist hafa neitað því en ástarsamband þeirra hófst að nýju nokkrum vikum síðar. Það rann þó fljótlega út í sandinn og Venables sneri sér að öðrum konum.
Gert er ráð fyrir að dómur yfir Venables verði kveðinn upp í næstu viku.