Faraldurinn er í vexti víða í Evrópu og öðrum heimshlutum og ný afbrigði, til dæmis BA.5 og BA.2.75, herja á fólk. Víða er farið að ræða af alvöru að grípa til einhverra sóttvarnaaðgerða á nýjan leik. Yfirvöld í Los Angeles eru til dæmis að íhuga að setja á grímuskyldu innanhúss í borginni, það er að segja í húsnæði sem almenningur hefur aðgang að.
Margir hafa eflaust áhyggjur af að þeir geti smitast af veirunni í fyrsta sinn og aðrir hafa áhyggjur af að smitast aftur. Ný afbrigði veirunnar virðast ansi góð í að komast fram hjá ónæmisvörnum líkamans og því veita fyrri smit og bólusetningar ekki fullkomna vörn.
Mirror segir að kínverskir vísindamenn hafi fyrstir allra sett fram þá kenningu í mars 2020 að blóðflokkur fólks geti ráðið einhverju hvað varðar líkurnar á að smitast af kórónuveirunni. Mánuði síðar var tekið undir þessa kenningu af vísindamönnum við Columbia University.
Fyrirtækið 23andMe, sem annast DNA-rannsóknir, styrkti þessa kenningu enn frekar þegar það gerði rannsókn á blóðflokki 750.000 manns sem höfðu smitast af veirunni og þurftu að leggjast inn á sjúkrahús vegna þess. Sú rannsókn leiddi í ljós að fólk í blóðflokki O var betur verndað gegn smiti en fólk í öðrum blóðflokkum.
Önnur rannsókn, sem var birt í the New England Journal of Medicine, staðfesti þetta en niðurstöður hennar sýndu að fólk í blóðflokki A er í 45% meiri hættu á að smitast af COVID-19 en fólk í öðrum blóðflokkum. Þeir sem eru í blóðflokki O eru í 35% minni hættu á að smitast miðað við fólk í öðrum blóðflokkum eftir því sem segir í niðurstöðum rannsóknarinnar.