Tilfellum apabólu hefur fjölgað nokkuð mikið í Bretlandi á dögunum og hafa yfirvöld hvatt Breta til að halda sér heima ef grunur er um sýkingu. Alls hafa nú 1.076 tilfelli greinst í Bretlandi, töluvert meira en til að mynda í Bandaríkjunum þar sem 244 hafa greinst. The Sun fjallaði um málið.
„Við búumst við því að tilfellum haldi áfram að fjölga á komandi dögum og vikum,“ segir dr. Sophia Makki, framkvæmdastjóri Heilbrigðisöryggisstofnunar Bretlands. „Ef þú ert að mæta á stóra viðburði yfir sumarið eða að stunda kynlíf með nýju fólki, vertu á varðbergi fyrir einkennum apabólu svo þú getir farið í skimun sem fyrst og komið í veg fyrir að smita aðra.“
Makki segir að meirihluti þeirra tilfella sem hafa greinst í Bretlandi séu hjá karlmönnum sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum. „Hins vegar þurfa allir sem eru í nánum samskiptum við einstaklinga með einkenni að hafa varann á.“
Þá segir Makki að ef grunur liggur á að fólk sé með apabólu þá eigi það alls ekki að mæta á viðburði, hitta vini eða stunda kynlíf. „Haldiði ykkur heima og hafið samband við heilbrigðisyfirvöld til að fá aðstoð.“