Sky News segir að vísindamenn við King‘s College London hafi komist að því að 4,4% smita af völdum Ómíkron valdi langvarandi veikindum en þegar um smit af völdum Delta er að ræða er hlutfallið 10,8%.
Niðurstaða vísindamannanna er því að líkurnar á að fólk glími við langvarandi COVID-19 veikindi séu 20 til 50% minni ef um smit af völdum Ómíkron er að ræða en ef um smit af völdum Delta er að ræða. Þetta er háð aldri fólks og hversu langt er um liðið síðan það var bólusett.
Vísindamennirnir notuðu gögn úr Zoe COVID einkenna rannsókninni. Dr Claire Steves, stjórnandi rannsóknarinnar, sagði að svo virðist sem mun minni líkur séu á að Ómíkron valdi langvarandi veikindum en fyrri afbrigði veirunnar en þó muni 1 af hverjum 23, sem smitast af COVID-19, glíma við einkenni í meira en fjórar vikur.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu The Lancet.